Forsíða

Íslenski kórinn í Gautaborg var stofnaður árið 1989. Kórinn syngur fyrst og fremst íslensk og sænsk lög, en einnig nokkuð af kirkjulegri tónlist. Kórinn er einn af frumkvöðlum kóramóta íslenskra kóra á Norðurlöndum og Norður Evrópu og hefur farið víðsvegar í söngferðir. Meðal annars til Íslands, Englands, Þýskalands og hinna Norðurlandanna. Yfir vetrarmánuðina aðstoðar kórinn við guðsþjónustur íslenska safnaðarins í Frölunda kirkju. Kórinn heldur tónleika reglulega og hefur í gegnum tíðina tekið þátt í almennum árlegum jólasöng í Dómkirkjunni í Gautaborg. Kórinn hefur einnig sungið við ýmiss önnur tækifæri svo sem á Þorrablótum, bókmenntakvöldum og hestamótum svo eitthvað sé nefnt.

Æfingar fara fram í safnaðarheimili  Västra Frölunda kirkju á mánudagskvöldum klukkan 18:30 til 21:00.  Við tökum mjög vel á móti söngglöðu fólki.  Við hvetjum áhugasama að hafa samband eða bara kíkja við á æfingu.

Núverandi kórstjóri er Daniel Ralphsson.

Daniel Ralphsson, tenór, tók masterspróf frá Óperuháskólanum í Stokkhólmi. Hann lærði einnig tónsmíðar við Tónlistarháskólann í Malmö og kórstjórnun við Konunglega tónlistarháskólann þar sem hann lauk prófi sem söngkennari og klassískur einsöngvari.

Daniel tók sín fyrstu skref í Konunglegu óperunni  í hlutverki Dr. Blind í Leðurblökunni 2012 og hélt áfram þar í fleiri hlutverkum, svo sem aðalsmaðurinn í Lohengrin, eftir Wagner, Pang í Turandot ásamt Monostatos í nýrri útfærslu af  Töfraflautunni og fleiri hlutverk. 

Daníel starfar nú hjá Gautaborgaróperunni og hefur meðal annars sungið Goro í Madame Butterfly, Gherardo í Gianni Schicchi, Mime í Rhenguldet, Monostatos í Töfraflautunni sem og mörg fleiri hlutverk.

Daniel Ralphsson hefur oft verið fenginn til að syngja í kirkjum um alla Svíþjóð, verk eftir Mozart, Bach, Schubert, Charpentier, Monteverdi og fleiri. Efnisskráin hans spannar allt frá Schubert til Charles Ives.

Lisa Fröberg stjórnaði kórnum frá hausti 2015 til hausts 2021.

Lisa Fröberg er píanóleikari, kórþjálfari og undirleikari. Hún vinnur fyrst og fremst í Gautaborg og nágrenni, en hefur s.l. 15 ár einnig unnið í Englandi, Noregi og víðar í Svíþjóð. Má þar nefna sem dæmi Folkoperan, Piteå Kammaropera, Opera Garden, Vadstena Akademinen og Den Norske Opera. Hún er einnig reglulega starfandi við Gautaborgar óperuna sem kórþjálfari og kórstjóri. Eftir að hún lauk námi við Högskolan för Scen och Musik í Gautaborg, var hún 1 ár á Guildhall School of Music and Drama í London og í söngnámi í Operastudio 67 í Stokkhólmi. Hún hefur einnig tekið námskeið sem söngvari í Salzburg, Vín, og Kangasniemi í Finnlandi.

Lisa heldur tónleika sem píanóleikari og söngvari og starfar sem sjálfstæður þjálfari fyrir kóra og óperusöngvara.

Kristinn og Tuula Jóhannesson voru stjórnendur kórsins frá 1989 til 2014 að undanteknum vetrinum 2008-2009 er Seth-Reino Ekström stjórnaði kórnum og vetrinum 2014 – 2015 er Þorsteinn Sigurðsson er stjórnaði kórnum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *