Íslenski kórinn í Gautaborg tók til starfa haustið 1989. Raunar höfðu nokkrir félagar hist vorið áður og reynt að koma á skipulögðum kórsöng, en það var fyrst um haustið sem verulegur skriður komst á málið. Haft var samband við Kristin og Tuulu Jóhannesson, sem tóku að sér að reyna að hafa stjórn á hópnum.
Fyrstu viðfangsefnin voru einföld í sniðum en kórnum óx snemma fiskur um hrygg og fór að koma fram á samkomum Íslendingasamtaka í Gautaborg. Félagar í kórnum hafa nær eingöngu verið Íslendingar en þó hefur einn og einn Svíi eða Færeyingur slæðst í hópinn, en skilyrði fyrir þátttöku þeirra má segja að sé góð kunnátta á íslensku og verulegur áhugi á landi og þjóð.
Markmið kórsins hefur ætíð verið að gefa Íslendingum í Gautaborg og nágrenni kost á því að koma saman og syngja og með því að viðhalda íslenskum menningarþáttum, en einnig er það hlutverk kórsins að kynna íslenska tónlist erlendis. Kórinn hefur haldið marga sjálfstæða tónleika í Gautaborg og víðar í Svíþjóð, en líka á Íslandi, í Osló, Kaupmannahöfn, Helsingfors og Borgå í Finnlandi. Kórinn hefur einnig staðið fyrir Íslandskynningum og komið fram á mörgum slíkum, t.d. í samvinnu við norrænu félögin.
Fyrir nokkrum árum hófst samstarf Íslenska kórsins í Gautaborg og Lundi. Kórarnir hafa haft það fyrir sið að koma saman einu sinni á ári, æfa saman og halda svo sameiginlega tónleika að kvöldi. Aðrir kórar hafa svo dregist inn í þetta starf undir styrkri stjórn Kristins Jóhannessonar söngstjóra í Gautaborg og Jóns Ólafs Sigurðarsonar, söngstjóra í lundi. Hápunktur þessa starfs hingað til [1998] var íslenskt kóramót í Kaupmannahöfn vorið 1997 með þátttöku kóra frá Gautaborg, Lundi, Kaupmannahöfn, Lundúnum og Luxemburg.
Kórinn hefur um nokkurra ára skeið tekið þátt í samkomum sem kallast Julsång i City. Þá syngja ýmsir kórar í dómkirkjunni í miðborg Gautaborgar í síðustu viku fyrir jól. Hin 1100 manna kirkja troðfyllist hvað eftir annað og þarna hefur íslenski kórinn kynnt lög eftir t.d. Sigvalda Kaldalóns, Atla Heimi Sveinsson, Þorkel Sigurbjörnsson og Jón Ásgeirsson.
Verkefnaval kórsins er að stofni íslenskt. Þar er bæði um að ræða eldri og yngri lög. Jafnframt leitast kórinn við að syngja norræna tónlist, fyrst og fremst sænska. Í söngferðinni til Íslands sumarið 1998 var tekið mest mið af þessum þætti verkefnavalsins.Þegar Íslenski söfnuðurinn í Gautaborg var stofnaður 1994 var gerður samningur við kór og kórstjóra að sjá um tónlistarþáttinn í guðsþjónustunum. Þetta samstarf kórs og kirkju hefur orðið báðum til góðs. Við þetta hefur verkefnaval kórsins einnig breikkað nokkuð, en auk þess að leiða almennan safnaðarsöng syngur kórinn eitt kórverk í hverri messu.
Enda þótt kórinn starfi sem sjálfstæður félagsskapur hefur hann ætíð átt góða samvinnu við önnur samtöku Íslendinga og tekið þátt í samkomum þeirra. Kórinn heldur æfingar að jafnaði einu sinni í viku. Fyrsti formaður kórsins var Már Túliníus, en síðan hafa Ævar Aðalsteinsson, Ingibjörg Gísladóttir, Kristinn Pétursson, Hilmar Viðarsson og Pétur Jóhannesson setið sem formenn. (Byggt á Íslandspóstinum frá 1998)